Innlent

Jón leiðir samgönguáætlun til lykta eftir brotthvarf Bergþórs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, á nefndarfundinum í morgun.
Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, á nefndarfundinum í morgun. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Klaustursmálið hefur haft þær pólitísku afleiðingar að það kemur í hlut nýs þingnefndarformanns að leiða til lykta eitt stærsta mál þingsins, samgönguáætlun, og það strax í næstu viku. Breytingin gæti orðið til þess að skýr skilaboð verði gefin um veggjöld til að flýta framkvæmdum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Samgönguáætlun hefur verið aðalmál umhverfis- og samgöngunefndar á haustþingi en núna er það ekki lengur Miðflokksþingmaðurinn Bergþór Ólason sem situr í forsæti nefndarinnar heldur sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnarsson, eftir að Bergþór fór í ótímabundið leyfi frá þingmennsku. En hefur þetta áhrif á áherslur í nefndinni? 

Samgönguáætlun var til umræðu á fundi þingnefndarinnar í morgun. Jón Gunnarsson situr í forsæti.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Jú, þessi uppákoma hefur eðlilega haft áhrif bara á störf þingsins almennt, - ekkert sérstaklega í okkar nefnd. En við höldum auðvitað bara áfram okkar vinnu. En þetta hefur haft áhrif á störfin svona í heild sinni,“ svarar Jón Gunnarsson. 

Svo vill til að Jón gegndi embætti samgönguráðherra um ellefu mánaða skeið á síðasta ári og kynnti þá hugmyndir um veggjöld til að flýta framkvæmdum, en hlaut fyrir gagnrýni, meðal annars frá Sigurði Inga Jóhannssyni, núverandi samgönguráðherra. 

-Muntu ná þínum hugmyndum í gegnum samgöngunefnd sem formaður núna? 

„Þetta er eitt af því sem hefur verið rætt mikið við gestakomur á nefndarfundum í haust um samgönguáætlun. Og það hafa auðvitað breyst mjög viðhorfin í samfélaginu gagnvart þessu.“

Frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar. Karl Gauti Hjaltason og Jón Gunnarsson.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Stefnt er að því nefndin afgreiði bæði fimm ára og fimmtán ára samgönguáætlun frá sér í næstu viku og vonast Jón til að ná samstöðu um skýr skilaboð um veggjöld. 

„Ég fagna því auðvitað að það er núna orðin þessi víðtækari sátt um þessa leið. Við erum svona að glíma við það í nefndinni núna hvort við getum unnið eitthvað með þær áherslur þannig að það megi koma svona skilaboð frá þinginu við afgreiðslu málsins; að það verði farið í það að reyna að flýta framkvæmdum, taka stærri og betri skref bara á næstu árum,“ segir Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×