Enski boltinn

Arsene Wenger léttur: Nú fæ ég bikar í hverri viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Vísir/Getty
Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, hefur verið duglegur að fá viðurkenningar eftir að hann hætti eftir 22 ár sem stjóri Arsenal.

Wenger sló á létta strengi í gær þegar hann fékk sérstök heiðursverðlaun Samtaka knattspyrnustjóra á Englandi.





Enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate afhenti Frakkanum verðlaunin sem hann fær fyrir þjónustu sína í enska fótboltanum. Wenger kom til Arsenal árið 1996 og undir hans stjórn vann félagið þrjá Englandsmeistaratitla og enska bikarinn sjö sinnum.

„LMA samtökin eru stolt af því að viðurkenna merkilegan feril Arsene sem knattspyrnustjóra,“ sagði Richard Bevan, framkvæmdastjóri LMA, sem heita fullu nafni League Managers Association eða Samtök knattspyrnustjóra ensku deildarkeppninnar á íslensku.

„Starf knattspyrnustjóra hefur breyst mikið frá fyrsta leik Arsene sem knattspyrnustjóra á Highbury árið 1996 en djúp áhrif hans á leikinn undanfarin 22 ár þýða að hann á svo sannarlega skilið aðdáun kollega sinna í fótboltanum,“ bætti Richard Bevan við.





Arsene Wenger sjálfur var léttur á því í verðlaunaafhendingunni.

„Eftir að ég hætti að keppa þá fæ ég bikar í hverri viku. Hversu vitlaus var ég að fatta þetta ekki fyrr,“ sagði Arsene Wenger í léttum tón.

Arsene Wenger gerði Arsenal að Englandsmeisturum þrisvar sinnum á sínum fyrstu átta árum í starfi (1996-2004) en Arsenal vann ekki titilinn á síðustu fjórtán árum hans með liðið (2005-2018).

Arsenal varð aftur á móti þrisvar sinnum ensku bikarmeistari á síðustu fimm tímabilum Arsene sem knattspyrnustjóra Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×