Handbolti

Fólk hætt að hlæja að Stjörnunni út af Sveinbirni og Agli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sveinbjörn Pétursson er besti markmaður deildarinnar í dag
Sveinbjörn Pétursson er besti markmaður deildarinnar í dag s2 sport
Stjarnan byrjaði ekki vel þetta haustið í Olísdeild karla en Garðbæingar hafa snúið genginu við og tveir bestu leikmenn deildarinnar þessa dagana spila í Garðabænum.

Sveinbjörn Pétursson er búinn að loka markinu eftir að hann snéri aftur úr leikbanni í upphafi tímabils og Egill Magnússon hefur verið frábær.

„Það er allt annað að sjá hann [Sveinbjörn] heldur en í fyrra. Nú er hann bara algjörlega mættur og í þessum leik, 47 prósenta markvarsla, Basti væri meira að segja ánægður með þetta,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson þegar þeir félagar voru ræddir í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

s2 sport
„Það sem Basti segir alltaf, hann segir að það skipti engu máli að verja skot og skot heldur þarftu að ná kafla til þess að liðin græði eitthvað á þessu og hann gerði það í seinni hálfleik,“ tók Jóhann Gunnar Einarsson undir.

Egill skoraði níu mörk í sigri Stjörnunnar á Akureyri um helgina og er næstmarkahæstur í deildinni, níu mörkum á eftir Ásbirni Friðrikssyni en hefur leikið tveimur leikjum minna.

„Þetta er ástæðan fyrir því að Stjarnan er búin að vinna þrjá í röð, komnir um miðja deild og menn eru ekki að hlæja lengur að Stjörnunni. Það er út af Sveinbirni og út af Agli,“ sagði Jóhann Gunnar.

Alla umræðuna má sjá í klippunni hér að neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Sveinbjörn og Egill frábærir fyrir Stjörnuna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×