Körfubolti

Menn skora líka með skalla í körfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Mickey fór örugglega í símann eftir leik og skoraði skallakörfuna sína.
Jordan Mickey fór örugglega í símann eftir leik og skoraði skallakörfuna sína. Vísir/Getty
Skallamörk eru mjög algeng í fóboltanum en það kemur líka fyrir að körfuboltamenn skori með skalla eins ótrúlega og það hljómar.

Sem sönnunargagn á bak við þá fullyrðingu er karfa sem Bandaríkjamaðurinn Jordan Mickey skoraði á dögunum fyrir rússneska félagið Khimki í Euroleague. Liðið var þá á heimavelli á móti Buducnost VOLI Podgorica frá Svartfjallalandi.

Euroleague er fyrir körfuboltann eins og Meistaradeild Evrópu er fyrir evrópska fótboltann.

Jordan Mickey hafði vissulega heppnina með sér í þessari körfu hans í öðrum leikhluta og skoraði eiginlega óaðvitandi.

Sending serbneska bakvarðarins Stefan Marković var hinsvegar svo „pottþétt“ að boltinn fór af höfði Jordan Mickey og í körfuna eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það er vissulega hægt að fullyrða að svona körfur sjái maður nú ekki á hverjum degi í körfuboltanum og hvað þá í sterkustu deildinni í Evrópu.

Jordan Mickey var þarna að skora sitt sjöunda stig og Stefan Marković að senda sína aðra stoðsendingu í leiknum.

Khimki vann leikinn á endanum örugglega með sextán stigum, 85-69. Jordan Mickey skoraði sautján stig og hitti úr 7 af 11 skotum en Stefan Marković var með 5 stoðsendingar og 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×