Viðskipti innlent

Segja WOW air ætla að fækka verulega í flotanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugvélar Wow air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar Wow air á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm
Víkurfréttir í Reykjanesbæ hafa heimildir fyrir því að verulega verði fækkað í flugflota WOW air. Félagið hyggst leggja átta af þeim tuttugu flugvélum sem félagið er með á leigu. Um er að ræða breytingar í kjölfar kaupa Icelandair Group á ölllu hlutafé í WOW air.

Greint var frá kaupum Icelandair Group á WOW air þann 5. nóvember. Kaupin eru háð blessun Samkeppniseftirlitsins og samþykkis á hluthafafundi Icelandair Group föstudaginnn 30. nóvember.

Eins og fram kemur í frétt Víkurfrétta gæti fækkun í flugflota WOW air haft keðjuverkandi áhrif á starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Fækkun um átta flugvélar svarar til fjörutíu prósenta fækkunar og þar af leiðandi minni vinnu og þjónustu vegna véla flugfélagsins á flugvellinum.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, sagðist ekki svara fyrirspurnum símleiðis og vísaði á Svönu Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air. Svana er stödd erlendis og lagði til að fyrirspurn yrði send í tölvupósti. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis sagði Svana upplýsingar ekki liggja fyrir. Fréttastofa gæti heyrt í henni um miðja næstu viku.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair sem lætur af störfum á næstunni, sagðist ekkert geta tjáð sig um málið.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×