Körfubolti

Bryndís: Loksins spilum við virkilega vel saman sem lið

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Bryndís átti góðan leik gegn sínum gömlu félögum
Bryndís átti góðan leik gegn sínum gömlu félögum vf.is
„Ég er bara gríðarlega ánægð. Loksins spilum við virkilega vel saman sem lið og það skóp sigurinn,“ voru fyrstu viðbrögð Bryndísar Guðmundsdóttur, leikmanns Keflavíkur eftir stórsigur liðsins á Snæfell í Dominos-deild kvenna í kvöld.

 

Bryndís var að leika gegn sínum gömlum félögum í kvöld, en hún yfirgaf uppeldisfélag sitt, Keflavík og gekk til liðs við Snæfell áður en hún kom aftur til Keflavíkur. Bryndís segist hafa gaman að því að spila á móti Snæfelli og elski félagið.

 

„Það er mjög gaman. Ég elska Snæfell jafn mikið og ég elska Keflavík. Mér finnst frábært að spila á móti þeim, auðvitað skrýtið en ég er uppalinn Keflvíkingur og þar slær hjartað aðeins meira.“

 

Keflavík byrjaði leikinn af krafti og náði góðri forystu snemma í fyrsta leikhluta. Forystuna létu Keflvíkingar aldrei af hendi. Bryndís segir það mikilvægt að ná forystu snemma leiksins.

 

„Það er auðvitað mjög mikilvægt. Við spiluðum að mér finnst mjög góða liðsvörn. Þetta er það sem hefur vantað í leikinn hjá okkur. Þetta hefur verið að gerast síðustu fimm mínúturnar í leikjum hjá okkur en nú var þetta í 40 mínútur. Ég held að það hafi verið munurinn.“

 

Kristen McCarthy hefur verið öflug í liði Snæfells í vetur og var hún stigahæst með 21 stig. Keflavík spilaði hins vegar öfluga vörn á hana og þvingaði hana í erfið skot. Skotnýting McCarthy var því aðeins um 35%

 

„Það var bara að spila góða liðsvörn og auðvitað halda henni fyrir framan sig og láta hana taka erfið skot. Þvinga hana í þessi skot og það gekk eftir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×