Enski boltinn

Vill fá þrjá leikmenn frá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas og Gary Cahill fagna síðasta Englandsmeistaratitli með Chelsea vorið 2017.
Cesc Fabregas og Gary Cahill fagna síðasta Englandsmeistaratitli með Chelsea vorið 2017. Vísir/Getty
Ítalskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um áhuga AC Milan á sænska framherjanum Zlatan Ibrahimovic en það eru miklu fleiri leikmenn á óskalistanum þegar félagsskiptaglugginn opnar aftur í janúar.

Brasilíumaðurinn Leonardo er íþróttastjórinn hjá AC Milan og hann er nú sagður í viðræðum við Chelsea.

Leonardo hefur áhuga á þremur leikmönnum Chelsea eða þeim Cesc Fabregas, Gary Cahill og Andreas Christensen.

Ítölsku miðlarnir Sport Mediaset og Radio Rossonera segja að Leonardo hafi rætt við Marina Granovskaja, kollega sinn hjá Chelsea. Expressen segir frá.

Það eru meiðslavandræði hjá AC Milan liðinu en miðvörðurinn Mattia Caldara og miðjumennirnir Lucas Biglia og Giacomo Bonaventura verða allir frá í langan tíma.

AC Milan er sagt ætla að reyna að fá þessa leikmenn á láni frá Chelsea.

Cesc Fabregas hefur bara spilað 3 leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur, Gary Cahill hefur aðeins spilað í 21 mínútu og Andreas Christensen á enn eftir að koma inná í deildarleik.

Allir voru þeir í stórum hlutverkum hjá Antonio Conte en eru ekki inn á myndinni síðan að Maurizio Sarri settist í stjórastólinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×