Bílar

Jaguar Land Rover á grænu ljósi

Finnur Thorlacius skrifar
Milljarða þróunarverkefni við að koma á samtali milli bíla og umferðarljósa er nú í gangi hjá breskum stjórnvöldum.
Milljarða þróunarverkefni við að koma á samtali milli bíla og umferðarljósa er nú í gangi hjá breskum stjórnvöldum.
Jaguar Land Rover tekur nú þátt í 20 milljón sterlingspunda þróunarverkefni á vegum breskra stjórnvalda sem hefur að markmiði að koma á „samskiptum“ milli bíla og umferðarljósa þannig að hægt sé að koma á sem hagkvæmustu flæði á bílaumferðina með því að lágmarka bið á rauðu ljósi. Slíkt myndi draga úr eldsneytiseyðslu og mengun. Ávinningurinn yrði þá um leið bætt loftgæði og jafnvel minni viðhaldskostnaður ökumanna á bremsubúnaði sem orsakast af stöðugri hægingu bíla í átt að rauðu ljósi.

Ekur á hagkvæmasta hraða

Jaguar Land Rover notar Jaguar F-Pace í tilraunum sínum í verkefninu en F-Pace er nú þegar með ýmsa háþróaða tækni til ökuaðstoðar, svo sem Advanced Driver Assistance (ADAS) sem nú er ætlunin að þróa áfram með nettengingum til að fjölga eiginleikum kerfisins. Þróunarverkefnið heitir Vehicle-to-Infrastructure (V2X) og tæknin sem stuðst er við í þróun kerfisins Green Light Optimal Speed Advisory (GLOSA) sem nú er verið að þróa áfram í núverandi ökuaðstoðarkerfi F-Pace tilraunabílsins.



Þróar gatnamótaviðvörun

Auk ökuaðstoðarkerfisins Advanced Driver Assistance (ADAS) vinnur fyrirtækið enn fremur að frekari þróun gatnamótaviðvörunarinnar Intersection Collision Warning (ICW) sem varar ökumann við eigi hann á hættu að lenda í árekstri haldi hann ótrauður áfram yfir aðvífandi gatnamót. ICW greinir aðra bíla við gatnamótin og skipuleggur hver fari fyrstur yfir. Þessi eiginleiki verður einnig tengdur GLOSA.



Fleira hangir á spýtunni

Tæknisérfræðingar Jaguar Land Rover hafa einnig reiknað tapaðan tíma sem fer í leit ökumanna að lausu bílastæði. Því hyggst fyrirtækið einnig þróa kerfi sem veitir upplýsingar um laus stæði í nágrenni fyrirhugaðs áfangastaðar ökumanns til að spara tíma og minnka eldsneytiseyðslu og mengun. Einnig er ætlunin að setja búnað í bílana sem lætur ökumann vita sé slökkviliðs-, sjúkra- eða lögreglubíll í forgangsakstri að nálgast svo ökumaðurinn geti vikið frá í tæka tíð. Þessum viðbótum verður bætt við núverandi ökuaðstoðarkerfi bíla Jaguar Land Rover sem nú þegar býr yfir ýmissi hagnýtri tækni, svo sem aðlögunarhæfa hraðastillinum Adaptive Cruise Control.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×