Körfubolti

Russell Westbrook náði Kidd á þrennulistanum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Russell Westbrook er kominn í þrennuformið og með sinni þriðju í síðustu fjórðum leikjum þá komst hann upp í þriðja sætið yfir flestar þrennur í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Þetta var líka þrennukvöld fyrir gamla liðsfélaga hans James Harden en líkt og 54 stig Harden dugðu ekki í fyrrakvöld þá dugði þrennan hans ekki í nótt. Houston Rockets tapaði með 20 stigum á heimavelli á móti Dallas Mavericks.

Russell Westbrook var með 23 stig, 19 fráköst og 15 stoðsendingar í 100-83 sigri Oklahoma City Thunder á Cleveland Cavaliers. Þetta var 107. þrennan hans á ferlinum og er hann nú kominn upp við hlið Jason Kidd í þriðja sæti listans.

Nú eru aðeins þeir Oscar Robertson (181) og Magic Johnson (138) fyrir ofan Russell Westbrook. Kidd þurfti 1247 leiki til að ná þessum 107 þrennum sínum en þetta var bara 760 leikur Westbrook.

Russell Westbrook missti af fyrstu leikjum tímabilsins eftir að hann fór í hnéaðgerð á undirbúningstímabilinu. Liðið tapaði fjórum fyrstu leikjum sínum en hefur nú unnið 13 af síðustu 16.

Þrennan í nótt var þriðja þrenna Russell Westbrook í síðustu fjórum leikjum. Hann var líka með þrennu á móti meisturum Golden State Warriors (11 stig, 11 fráköst, 13 stoðsendingar) og Denver Nuggets (16 stig, 10 fráköst, 12 stoðsendingar) og er farinn að nálgast þrennumeðaltali sem hann hefur verið með undanfarin tvö tímabil.



Nýliðinn Luka Doncic var með 20 stig á aðeins 24 mínútum þegar Dallas Mavericks vann laufléttan 128-108 útisigur á Houston Rockets. Það hefur bæði gengið illa á útivelli í vetur og á móti Houston undanfarin ár en slóvenska undrabarnið er að breyta miklu fyrir Dallas-liðið.

James Harden var með 25 stig, 17 stoðsendingar og 11 fráköst fyrir Houston en það var langt frá því að duga alveg eins og 54 stiga leikur hans í fyrrinótt. Liðið saknar mikið Chris Paul sem er meiddur en þetta var fjórði tapleikurinn í röð.



Hinn 19 ára gamli Doncic hefur nú skorað tuttugu stig eða meira í 10 af 18 leikjum tímabilsins og hann hefur farið fyrir betri leik Dallas-liðsins að undanförnu. Dallas tapaði 8 af fyrstu 11 leikjum sínum en þetta var þriðji sigurleikurinn í röð.



Damian Lillard setti niður 10 þriggja stiga körfur og skoraði alls 41 stig í 115-112 sigri Portland Trail Blazers á Orlando Magic. Þetta er nýtt met hjá Portland í þristum í einum leik en Lillard hitti úr 10 af 15 þriggja stiga skotum í leiknum.



Giannis Antetokounmpo bætti við enn einum stórleiknum í 116-113 sigri Milwaukee Bucks á nágrönnunum í Chicago Bulls. Giannis var með 36 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.

Úrslitin í NBA-deildinni:

Los Angeles Clippers - Phoenix Suns 115-99

Portland Trail Blazers - Orlando Magic    115-112    

Houston Rockets - Dallas Mavericks    108-128    

Milwaukee Bucks - Chicago Bulls    116-113    

Minnesota Timberwolves - San Antonio Spurs    128-89    

New Orleans Pelicans - Washington Wizards    125-104    

Oklahoma City Thunder - Cleveland Cavaliers    100-83    

Brooklyn Nets - Utah Jazz    91-101    

Charlotte Hornets - Atlanta Hawks    108-94    

Philadelphia 76ers - New York Knicks    117-91    

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×