Fótbolti

Helgi Mikael verður FIFA-dómari á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Mikael Jónasson í leik í Pepsi-deildinni síðasta sumar.
Helgi Mikael Jónasson í leik í Pepsi-deildinni síðasta sumar. Vísir/Daníel
Tvær breytingar verða á íslenska FIFA-dómara listanum á næsta ári en þetta kemur fram í fundagerð Dómaranefndar KSÍ sem var birt inn á heimasíðu sambandsins.

Það er mat dómaranefndar að frammistaðan hjá dómurunum síðasta sumar hafi heilt yfir verið góð. Margir dómarar dæmdu í deild ofar en þeir höfðu áður gert og fórst það vel úr hendi.

Í fundagerðinni er einnig farið yfir stöðuna í landsdómarahópnum og FIFA listann fyrir árið 2019. Það eru að verða breytingar á dómarahópnum á næsta ári.

Átta landsdómarar luku ekki síðsumarsþolprófi í ár en auk þess hafa meiðsli og sumarfrí orðið þess valdandi að mönnun leikja var þung seinni parts ágústs og fram í miðjan september.

Það er líka ljóst að einhver breyting verður á landsdómaralistanum í vor. Það stefnir í að fimmi landsdómarar munu hætta. Nýir landsdómar sem verða teknir inn í þeirra stað verða að hafa staðist þrekpróf auk þess að þeir verða skoðaðir í leikjum.

Sú breyting verður á FIFA listanum að Þóroddur Hjaltalín og Frosti Viðar Gunnarsson munu hætta að dæma eftir þetta tímabil. Helgi Mikael Jónasson dómari og Gylfi Tryggvason aðstoðardómari munu taka þeirra sæti á FIFA listanum.  FIFA listinn þarf að vera klár í júní á næsta ári en ekki í lok september eins og verið hefur.

FIFA-dómararnir fyrir árið 2019 verða því auk Helga Mikaels þeir Bríet Bragadóttir, Ívar Orri Kristjánsson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson og Þorvaldur Árnason.

Helgi Mikael Jónasson er fæddur í október 1993 og er því nýorðinn 25 ára. Hann hefur dæmt í Pepsi-deild karla undanfarin þrjú tímabil og samtals 35 leiki. Hann hefur dæmt fleiri leiki á hverju ári og dæmdi 16 leiki í 22 umferðum síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×