Innlent

Setti skópar í poka og dró upp hníf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var nóg að gera hjá lögreglu í nótt.
Það var nóg að gera hjá lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm
Maður ógnaði starfsmanni verslubar í Kópavogi með hníf eftir að starfsmaðurinn varð vitni að því að maðurinn reyndi að stela skópari.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en þar segir að starfsmaðurinn hafi horft á manninn setja skópar í poka sem hann hafði meðferðis. Óskaði starfsmaðurinn eftir því að fá að sjá í pokann er maðurinn ætlaði að yfirgefa verslunina.

Maðurinn sagði hins vegar nei við þeirri bón og hljóp út úr versluninni. Starfsmaðurinn hljóp á eftir manninum og náði tali af honum þegar maðurinn var kominn talsvert langt frá versluninni. Þá dró maðurinn upp hníf, ógnaði starfsmanninum og hljóp í burtu.

Þetta var eini þjófnaðurinn úr verslun sem lögregla fékk á sitt borð í gær og í nótt. Að því er fram kemur í dagbók lögreglu var tilkynnt um þjófnað í verslun í póstnúmerinu 105 í Reykavík. Þar höfðu hini meintu þjófar farið í bifreið og ekið á brott. Lögreglan hafði afskipti af fjórum einstaklingum í bílnum og voru þeir handteknir. Eru þeir grunaðir um þjófnað, akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og vörslu fíkniefna.

Þá var einnig tilkynnt um þjófnað í verslun í miðbænum skömmu eftir miðnætti. Þegar lögreglu bar að garði var hinn meinti þjófur á bak og brott. Hann sneri hins vegar aftur á vettvang um tveimur tímum síðar og var hann þá handtekinn. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×