Enski boltinn

Annar sigur Newcastle í röð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rondon skoraði tvisvar fyrir Newcastle
Rondon skoraði tvisvar fyrir Newcastle vísir/getty
Newcastle vann sinn annan leik í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar Bournemouth mætti í heimsókn.

Í síðustu viku vann Newcastle sinn fyrsta leik með 1-0 sigri á Watford. Liðið kom fullt af sjálfstrausti inn í leikinn við Bournemouth og var komið með forystuna eftir aðeins sjö mínútur. DeAndre Yedlin átti fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Salomon Rondon skoraði í annari tilraun eftir að Asmir Begovic varði fyrsta skotið hans.

Rondon tvöfaldaði forystuna á 40. mínútu áður en Jefferson Lerma minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir fyrirgjöf Ryan Fraser.

Ekkert mark kom í seinni hálfleik og annar sigur Newcastle raunin.



Huddersfield og West Ham skildu jöfn í Huddersfield. Bæði lið þurftu á stigi að halda en geta nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki skorað sigurmarkið og tekið öll þrjú.

Alex Pritchard kom Huddersfield yfir snemma leiks og lengi vel leit út fyrir að þeir næðu að hanga á stigunum þremur en Felipe Anderson jafnaði metin þegar um korter var eftir af leiknum og þar við sat.



Á suðurströndinni gerðu Southampton og Watford einnig 1-1 jafntefli.

Jose Holebas bjargaði stigi fyrir Watford með marki á 82. mínútu eftir að Manolo Gabbiadini kom Southampton yfir á 20. mínútu.

Charlie Austin virtist hafa komið Southampton í 2-0 á 66. mínútu leiksins en mark hans var dæmt ógilt. Það virðist sem dómarinn hafi verið þeirrar skoðunar að Maya Yoshida væri rangstæður og truflaði Ben Foster í markinu eða komið við boltann. Ekki eru allir þó sammála þeim dómi.

Því verður þó ekki breytt og lokatölur leiksins 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×