Enski boltinn

Sanchez fékk nóg eftir að hafa verið á bekknum gegn City og vill komast burt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sanchez í leiknum gegn City.
Sanchez í leiknum gegn City. vísir/getty
Sú ákvörðun Jose Mourinho, stjóra Manchester United, að bekkja Alexis Sanches í Manchester grannaslagnum vakti ekki mikla lukku hjá Síle-manninum.

Sanchez var geymdur á varamannabekknum er United fór yfir á Etihad en United tapaði 3-1 og var mun slakari aðilinn í leiknum. Sanchez kom inn á sem varamaður á 73. mínútu.

Hann var fenginn til United í janúar frá Arsenal og skrifaði hann þá undir langtímasamning við félagið. Sanchez er launahæsti leikmaður liðsins.

Þegar hann gekk í raðir United átti hann að verða ein af stjörnunum undir stjórn Mourinho og eiga fast sæti í liðinu, segir í frétt Daily Star. Það hefur heldur betur ekki verið raunin.

Nú vill framherjinn komast í burt sem fyrst. Sanchez er sagður vilja burt í janúar en hann gæti mögulega beðið aðeins og séð hvort að Mourinho verði rekinn en sæti hans er talið afar heitt.

Bæði PSG og Real Madrid eru sögð áhugasöm um framherjann en hann er kominn aftar í goggunarröðina. Leikmenn eins og Anthony Martial og Jesse Lingard eru sagðir fyrir framan hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×