Innlent

Hlutfall nemenda í starfsnámi á Íslandi með því lægsta í Evrópu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Flestir nemendur sem velja starfsnám eru í húsasmíði, rafiðnum og sjúkraliðanámi.
Flestir nemendur sem velja starfsnám eru í húsasmíði, rafiðnum og sjúkraliðanámi. Fréttablaðið/Anna Fjóla
Aðeins 13,5 prósent ungra nýnema á framhaldsskólastigi völdu einhverskonar starfsnám á síðasta skólaári. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Menntamálastofnunar. Það er þó örlítil fjölgun frá árinu áður en talsvert undir meðaltali síðustu tíu ára.

Hlutfall nemenda í starfsnámi á Íslandi er með því lægsta í Evrópu en einungis í Litháen og á Írlandi er hlutfallið lægra samkvæmt nýrri skýrslu OECD um menntamál. Að meðaltali stunda tæp 19 prósent ungs fólks í 27 Evrópulöndum starfsnám en hér á landi er hlutfallið 10,2 prósent.

Flestir nemendur sem velja starfsnám eru í húsasmíði, rafiðnum og sjúkraliðanámi.

Þá er meðalaldur við brautskráningu úr starfsnámi hæstur hér á landi. Fjórði hver nýnemi í starfsnámi var á síðasta námsári yfir tvítugu og meðalaldur við fyrstu brautskráningu var tæp 28 ár.

Ísland er einnig sér á báti þegar litið er á kynjahlutföll í starfsnámi. Hlutfall ungra kvenna (15 – 24 ára) í starfsnámi á framhaldsskólastigi árið 2016 var 16,5 prósent á móti 32 prósent karla. Þetta er næstlægsta hlutfall ungra kvenna í starfsnámi miðað við önnur Evrópulönd og næstmesti kynjamunurinn.

Þá voru karlar í meirihluta í tveimur vinsælustu iðngreinunum á Íslandi, húsasmíði og rafiðnum á meðan einungis örfáar konur lögðu stund á þessar greinum. Konur eru í miklum meirihluta nemenda í sjúkraliðanámi, listtengdu starfsnámi og á félagsliðabrautum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×