Lífið

Banda­ríski kántr­í­söngvarinn Roy Clark er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Roy Clark á sviði í Nashville árið 2010.
Roy Clark á sviði í Nashville árið 2010. Getty/Tony R. Phipps
Roy Clark, sem talinn er einn af risunum í bandarískri kántrítónlist, er látinn. Hinn margverðlaunaði tónlistarmaður og sjónvarpsmaður varð 85 ára gamall.

USA Today greinir frá því að Clark hafi andast á heimili sínu í Tulsa í Oklahoma fyrr í dag. Hann hafði glímt við lungnabólgu síðustu daga.

Roy Clark er talinn einn áhrifamesti tónlistarmaðurinn innan kántrítónlistarinnar og gerði einnig garðinn frægan sem þáttastjórnandi í sjónvarpi. Átti hann mikinn þátt í að auka vinsældir kántrítónlistarinnar. Á áttunda áratugnum kom hann margorft fram sem gestastjórnandi í The Tonight Show, kvöldþætti Johnny Carson.

Þá stýrði Clark lengi þættinum Hee Haw sem var á dagskrá í bandarísku sjónvarpi á árunum 1969 til 1997. Þar kom hann meðal annars fram með stórstjörnum á borð við Johnny Cash, Garth Brooks og Loretta Lynn. Clark var valinn inn í Frægðarhöll kántrítónlistarinnar árið 2009.

Að neðan má sjá Roy Clark og Johnny Cash taka saman lagið Folsom Prison Blues í þættinum Hee Haw.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×