Erlent

Þingforseta Sri Lanka fylgt inn í sal af lögreglu vegna slagsmála

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Þingforseti Sri Lanka þurfti lögreglufylgd inn í þingsalinn í morgun vegna átaka þingmanna sem hafa nú slegist sín á milli tvo daga í röð. Þar að auki hafa þingmenn kastað chilikryddi, bókum og húsgögnum í aðra þingmenn. Forsetinn, Karu Jayasuriya, komst ekki inn í þingsalinn í um klukkustund vegna átakanna.

Alvarleg pólitísk krísa skekur nú eyríkið eftir að Maithripala Sirisena, foseti Sri Lanka, rak Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra, úr embætti þann 26. október og skipaði Mahinda Rajapaksa, fyrrverandi forseta landsins, í hans stað.



Þingið kom saman á miðvikudaginn og samþykkti vantrauststillögu gegn Rjapaksa og ályktun um að Sirisena hefði brotið lög með því að skipa hann í embætti. Sirisena bað þingmenn um að breyta tillögunni og taka hana aftur til umræðu. Síðan þá hafa átök brotist út á þinginu.

Bandamenn Rajapaksa á þinginu eru sagðir hafa hafið átökin og hafa þeir einnig veist að lögregluþjónum sem reyndu að skýla forseta þingsins. Reyndu þeir að koma í veg fyrir samþykkt vantrauststillögunnar en án árangurs.

Önnur vantrauststillaga var samþykkt í morgun en henni var breytt á þann hátt að nú kemur þar ekkert fram um að Sirisena hafi brotið lög. Minnst tveir lögregluþjónar særðust í átökunum og nokkrir þingmenn þurftu að leita sér aðhlynningar eftir að kryddi var kastað framan í þá.

Jayasuriya mun tilkynna Sirisena niðurstöðuna í dag og liggur ekki fyrir hvað forsetinn mun gera. Ef hann samþykkir tillöguna og víkur Rajapaksa úr embætti verður Sri Lanka án forsætisráðherra. Þingið verður kallað saman á nýjan leik á mánudaginn.



Hér að neðan má sjá lætin í morgun og slagsmál í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×