Rashford stal sigrinum í uppbótartíma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Félagarnir Rashford og Jesse Lingard fagna marki þess fyrrnefnda
Félagarnir Rashford og Jesse Lingard fagna marki þess fyrrnefnda Vísir/Getty
Marcus Rashford tryggði Manchester United sigur gegn Bournemouth með marki í uppbótartíma.

Bournemouth gat með sigri farið upp í fjórða sæti deildarinnar og byrjuðu heimamenn miklu betur. Ryan Fraser fékk dauðafæri á innan við fimm mínútum en náði ekki að nýta sér það.

Callum Wilson nýtti sér hins vegar sitt færi nokkrum mínútum seinna og skaut Bournemouth í forystu á 11. mínútu.

Leikmenn Bournemouth voru með leikinn í höndum sér í fyrri hálfleik og sóknarmenn Manchester United sáust varla framan af. Gestirnir fóru hins vegar í fyrstu alvöru sókn sína eftir rúman hálftíma og upp úr henni uppskáru þeir jöfnunarmark gegn gangi leiksins.

Það var Anthony Martial sem skoraði sitt fimmta mark í jafnmörgum leikum fyrir United og sá til þess að liðin gengu jöfn til leikhlés.

Jose Mourinho hefur kveikt aðeins á hárblásaranum í hálfleiksræðu sinni því það var allt annað að sjá til United í seinni hálfleik.

Það var eins og æðri máttarvöld vildu ekki sjá sigurmark frá United um miðjan seinni hálfleikinn. Gestirnir höfðu átt nokkur ágæt skot en ekkert uppskorið. Þá tók Ashley Young aukaspyrnu á 65. mínútu sem skall í samskeitunum.

Þaðan féll boltinn fyrir Marcus Rashford í teignum en skot hans fór í Nathan Ake sem sat í grasinu í markteignum. Paul Pogba fékk þá boltann í fæturnar og reyndi að koma honum yfir línuna en David Brooks sópaði boltanum frá á síðustu stundu.

United hélt áfram að sækja en náði ekki að uppskera sigurmarkið og leit út fyrir að liðin myndu skilja jöfn þar til Marcus Rashford fékk boltann inni í teignum á 92. mínútu leiksins og kláraði í netið.

Sigurinnn þýðir að United jafnar Bournemouth að stigum og fer upp í sjöunda sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira