Jóhann Berg skoraði og lagði upp í tapi Burnley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson skoraði annað mark Burnley og lagði hitt upp í 4-2 tapi fyrir West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Bæði lið eru í baráttunni í neðri hluta deildarinnar og þurftu nauðsynlega sigur. West Ham virtist þó vilja sigurinn meira og voru miklu betri aðilinn í leiknum.

Fyrsta markið kom strax á 10. mínútu og má skrifa það á James Tarkowski í vörn Burnley. Hann var sofandi í vörninni og ætlaði að senda til baka á Joe Hart í rólegheitum en Marko Arnautovic tók af honum boltann og skoraði framhjá Hart.

Gegn gangi leiksins jafnaði íslenski landsliðsmaðurinn á 45. mínútu. Langur bolti fram á Ashley Westwood sem fann Jóa Berg.

Í seinni hálfleik héldu yfirburðir West Ham áfram. Felipe Anderson kom þeim aftur yfir á 68. mínútu. Aftur náði Burnley að jafna, Jóhann Berg átti hornspyrnu sem varamaðurinn Chris Wood skallaði í netið.

Anderson vildi hins vegar ekkert að það yrði jafntefli. Hann átti skot í slána tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið og skoraði svo sitt annað mark stuttu seinna.

Fjórða og síðasta markið gerði Javier Hernandez í uppbótartíma og þar við sat.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira