Innlent

Bæjarfulltrúar skelkaðir fyrir bocciaviðureign

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá viðureign Garðabæjar og Kópavogs árið 2014.
Frá viðureign Garðabæjar og Kópavogs árið 2014. Vísir/VILHELM
Öldungaráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu þess efnis að skora eldri borgara sveitarfélagsins á hólm í bocciaknattleik. Bæjarfulltrúi segir að það muni verða á brattann að sækja.

„Við búum við eitt blómlegasta íþrótta- og félagsstarf eldri borgara hér í Kópavogi. Í upphafi síðasta kjörtímabils öttum við kappi við bæjarfulltrúa og eldri borgara Garðabæjar í boccia og burstuðum þau. Því vildu þau ekki keppa við okkur aftur,“ segir Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Því hafi verið ákveðið að koma á nokkurs konar Kópavogsleikum í boccia. Birkir segir að gott samstarf hafi verið milli bæjarfulltrúa og eldri borgara og markmiðið sé að efla tengsl og jákvæð samskipti. Birkir er sjálfur lunkinn bridsspilari en ekki kom til greina að bæta bridsi á dagskrána.

„Það er ljóst að það verður við ramman reip að draga í boccia enda hafa eldri borgarar sveitarfélagsins unnið þar frækna sigra. Trúlega þarf bæjarstjórnin að fara í einhverjar æfingabúðir. Þau eru einnig gríðarlega öflug í brids og við lögðum ekki í þá keppni,“ segir Birkir.

Ekki liggur fyrir hvenær kappleikurinn fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×