Handbolti

Stjarnan marði Fylki eftir framlengingu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefanía átti góðan leik í kvöld.
Stefanía átti góðan leik í kvöld. vísir/ernir
Stjarnan marði B-deildarlið Fylkis, 25-24, í Coca-Cola bikar kvenna eftir framlengdan leik en leikið var í Árbænum í kvöld.

Stjarnan var einu marki yfir í leikhlé, 10-9, en eftir dramatískar lokasekúndur var niðurstaðan eftir venjulegan leiktíma 23-23.

Stjarnan, sem hefur verið í miklum vandræðum í Olís-deildinni, hafði að lokum betur með einu marki, 25-24, og er því komið áfram í næstu umferð bikarsins.

Stefanía Theodórsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Elísabet Gunnarsdóttir sex. Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði átta mörk fyrir Fylki.

Annað lið sem er í vandræðum í Olís-deildinni, Selfoss, er einnig komið áfram í næstu umferð bikarsins eftir fimm marka sigur á Fjölni í Dalhúsum, 33-28. Selfoss var 19-12 yfir í hálfleik.

Landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir skoraði átta mörk fyrir Selfoss og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir gerðu fimm. Elísa Ósk Viðarsdóttir gerði sex mörk fyrir Fjölni.

KA/Þór, sem hefur verið að gera flotta hluti í Olís-deildinni sem nýliðar, voru þriðja lið kvöldsins til að tryggja sér sæti í næstu umferð með eins marks sigri á Aftureldingu, 26-25.

Sólveig Lára Kristjánsdóttir var frábær í liði KA/Þórs og skoraði hún tólf mörk en Þóra María Sigurjónsdóttir var öflug í liði Aftureldingar með tíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×