Innlent

Dælingu haldið áfram í fyrramálið

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjordvik í Helguvík.
Fjordvik í Helguvík. Vísir/Jóhann K.
Dælingu úr sementsskipinu Fjordvik, sem strandaði við ytri hafnargarðinn í Helguvík aðfaranótt laugardags, hefur verið hætt. Dælingu á olíu úr skipinu verður framhaldið klukkan átta í fyrramálið.

Haldinn var fundur um stöðu mála í kvöld þar sem mættir voru fulltrúar Reykjanesbæjar, Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og hafnaryfirvalda Helguvíkurhafnar.

Hollensku sérfræðingarnir, frá alþjóðlega fyrirtækinu sem sérhæfir sig í björgun skipa, sátu fundinn en Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir í samtali við Vísi sérfræðingana ekki hafa lagt fram aðgerðaáætlun um hvernig bjarga eigi skipinu. Sú vinna sé enn í gangi.

Hún segir að menn telji ekki að skaði hafi orðið af olíuleka frá skipinu. Nú sé allt kapp lagt á að ná olíu úr skipinu til að draga úr líkum á tjóni. Það sem skipti mestu máli sé að gera það af öryggi og fagmennsku.

Að sögn Kristínar hefur mikið starf farið í að tryggja skipið og þar togist á ýmis sjónarmið. Eigendur skipsins vilji að sjálfsögðu ekki glata skipinu en öryggi fólks og umhverfis hafi forgang í þessu máli.

Fundað verður aftur í hádeginu á morgun.


Tengdar fréttir

Áhöfn Fjordvik til ráðgjafar í dag

Áhöfn sementsflutningaskipsins Fjordvik sem strandaði í Helguvík hefur óskað eftir að fá að nálgast persónulega muni sína um borð. Þá aðstoðuðu skipstjóri og stýrimaður skipsins björgunarteymi á staðnum í dag. Byrjað var að dæla olíu úr skipinu um miðjan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×