Enski boltinn

Leikjahæsti leikmaður Englands hundfúll með að Rooney fái heiðursleik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Shilton er alveg æfur yfir því að Rooney nálgist leikjamet sitt
Shilton er alveg æfur yfir því að Rooney nálgist leikjamet sitt vísir/getty
Wayne Rooney mun taka landsliðsskóna af hillunni og leiða lið Englands í vináttuleik gegn Bandaríkjunum þann 15. nóvember næstkomandi á Wembley. Leikurinn er góðgerðarleikur til styrktar Wayne Rooney Foundation, góðgerðarfélagi Rooney.

Leikjahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi, markvörðurinn Peter Shilton, gagnrýnir ákvörðunina harkalega í samtali við The Mirror.

„Ég var í sjokki þegar ég las þetta og ég á enn erfitt með að skilja þessa ákvörðun. Það eru liðin tvö ár síðan Wayne spilaði síðast. Það er ný kynslóð tekin yfir hjá Englandi sem gerði frábæra hluti á HM en þetta er skref til baka,“ segir Shilton.

Miðað við pirring Shilton mætti ætla að hann sé hræddur um að Rooney, sem er næstleikjahæsti leikmaður Englands, nái honum í leikjafjölda en það er þó ekki raunin.

Shilton lék 125 landsleiki á ferli sínum en leikurinn verður 120. landsleikur Rooney. Rooney er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi en Shilton er hundfúll með að hann fái gefins einn leik til viðbótar.

„Ég er ekki að segja að Wayne eigi ekki skilið að vera heiðraður en gefið honum þá einhver verðlaun eða eitthvað slíkt. Ekki bara gefa mönnum landsleiki. Það er rangt auk þess sem það kemur í veg fyrir að ungir leikmenn fái tækifæri.“

„Ég get ekki stutt þetta. Það á að vera mesti heiður og mesta viðurkenningin fyrir alla leikmenn að spila fyrir þjóð sína og raunveruleikinn er sá að MLS er engan veginn í sama gæðaflokki og enska úrvalsdeildin,“ segir Shilton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×