Erlent

Heræfingar hafnar að nýju í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heræfingu Suður-Kóreu og Bandaríkjanna fyrr á árinu.
Frá heræfingu Suður-Kóreu og Bandaríkjanna fyrr á árinu. EPA/JEON HEON-KYUN
Fyrsta sameiginlega heræfing Suður-Kóreu og Bandaríkjanna frá því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að slíkum æfingum skyldi hætt stendur nú yfir. Eftir fund Trump og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, í sumar sagði Trump að sameiginlegum æfingum skyldi hætt um tíma og sagði Trump sjálfur að æfingarnar væru kostnaðarsamar og „ögrandi“ gagnvart Norður-Kóreu.

Æfingarnar eru þó smáar í sniðum og fela í sér þátttöku um 500 landgönguliða beggja ríkjanna.

Bandaríkin eru með um 28.500 hermenn í Suður-Kóreu og hafa ríkin reglulega staðið í sameiginlegum æfingum. Þær eru sagðar vera varnarlegs eðlis en yfirvöld Norður-Kóreu hafa reglulega fordæmt þær og sagt þær vera undirbúning fyrir innrás.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun funda með erindrekum frá Norður-Kóreu á næstu dögum þar sem afvopnun Norður-Kóreu verður rædd. Trump og Kim skrifuðu undir samkomulag í Singapúr í sumar sem þótti óljóst og hefur lítill árangur náðst síðan þá.

Bandaríkin hafa lagt áherslu á að viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu verði haldið til streitu þar til einræðisríkið lætur kjarnorkuvopn sín af hendi. Yfirvöld Norður-Kóreu vilja hins vegar ekki taka skref í átt að afvopnun án þess að losna fyrst við refsiaðgerðir.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni gaf Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu út yfirlýsingu á föstudaginn þar sem því var hótað að framleiðsla kjarnorkuvopna yrði hafin að nýju í einræðisríkinu. Það yrði gert ef Bandaríkin léttu ekki á þvingunum.



Pompeo sagði þó seinna á föstudaginn að það kæmi ekki til greina án aðgerða frá Norður-Kóreu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×