Golf

Birgir Leifur áfram á lokaúrtökumótið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. getty
Birgir Leifur Hafþórsson mun spila á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann spilaði frábærlega á öðru stigi úrtökumótanna um helgina.

Birgir Leifur lék fjórða og síðasta hringinn í dag. Hringurinn var sá slakasti hjá Birgi til þessa, hann var aðeins á einu höggi undir pari.

Það kom þó ekki að sök því Birgir endaði jafn í 6. - 13. sæti mótsins á þrettán höggum undir pari.

Gert er ráð fyrir því að 20 efstu kylfingarnir á hverjum velli fari áfram á lokaúrtökumótið og því ljóst að Birgir Leifur fær þátttökurétt þar.

Annað stigið fer fram á fjórum völlum og Haraldur Franklín Magnús tók einnig þátt í því, en á öðrum velli en Birgir Leifur.

Haraldur var rétt fyrir utan tuttugu efstu fyrir lokahringinn í dag og þurfti því að eiga góðan hring til þess að komast á lokastigið. það tókst hins vegar ekki, hann átti sinn versta hring á mótinu.

Haraldur fór hringinn á þremur höggum yfir pari og endaði jafn í 37. sæti á fjórum höggum undir pari samanlagt. Hann fær því líklega ekki að keppa á lokastiginu.

Síðasta úrtökumótið þar sem 25 efstu tryggja sig inn á Evrópumótaröðina hefst 10. nóvember á Lumine vellinum á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×