Erlent

Sjálfsvígstíðni barna í Japan ekki verið hærri í þrjá áratugi

Sylvía Hall skrifar
Mörg tilfelli eru rakin til fjölskylduvandamála, eineltis eða framtíðarkvíða.
Mörg tilfelli eru rakin til fjölskylduvandamála, eineltis eða framtíðarkvíða. Vísir/Getty
Sjálfsvíg barna í Japan hafa ekki verið algengari í þrjá áratugi samkvæmt nýjum tölum frá menntamálaráðuneyti landsins en frá árinu 2016 til marsmánaðar á þessu ári höfðu 250 börn undir átján ára aldri framið sjálfsvíg. Flest barnanna voru á menntaskólaaldri.

Ástæður 140 tilfella eru óljós en í þeim tilvikum skildu börnin ekki eftir bréf. Önnur tilfelli eru rakin til fjölskylduvandamála, eineltis eða framtíðarkvíða.

Tíðni sjálfsvíga á meðal barna hefur ekki verið svo há síðan árið 1986 en sjálfsvíg hafa verið mikið vandamál í Japan, þá sérstaklega á þeim tíma sem börn snúa aftur í skóla í september. Þá er sjálfsvíg helsta dánarorsök barna í landinu.

Árið 2015 var farið í aðgerðir vegna sjálfsvígstíðni í landinu eftir ógnvænlegar tölur og lækkaði tíðnin umtalsvert en árið 2017 voru tilfellin 21 þúsund samanborið við hátt í 35 þúsund tilfelli árið 2003.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Nánari upplýsingar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×