Innlent

Þolinmæði í þjóðfélaginu minni hvað varðar kynferðislega áreitni

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi í kynferðisafbrotadeild, segir minni þolinmæði í þjóðfélaginu nú en áður hvað varðar kynferðislega áreitni. Slíkum tilkynningum hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár.

Í fréttum stöðvar 2 í gær var sagt frá nýrri skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot árið 2017. Þar kom fram að slíkar tilkynningar jukust um fimmtíu prósent frá árinu 2016 og hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 2014.

„Klárlega hefur aukin umræða og minni þolinmæði fyrir framkomu á þessu tagi ýtt á fólk til að stíga fram. Svo er líka bara breytt viðhorf í þessum málum,“ segir hann.

Aðspurður hvort verkferlar hafi breyst eitthvað segir hann að með opnun Bjarkarhlíðar, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hafi málin fengið greiðari leið inn til lögreglunnar. Þar geti þolendur fengið ráðgjöf, hitt lögreglumann og sótt stuðning áður en stigið er skrefið að tilkynna til lögreglu.

„Þetta er náttúrulega þróun, ef við skoðum frá árinu 2014 þá hefur verið línuleg aukning í brotum sem þessum. Ef ég man rétt þá var fimmtíu og sjö prósent aukning frá 2014 til 2015. Þetta hefur því verið þróun síðustu ára.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×