Innlent

Þriðjungur ellilífeyrisþega hefur ekki tök á að hætta að vinna

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Yfir þriðjungur ellilífeyrisþega er starfandi á Íslandi og segir helmingur þeirra ástæðuna vera að þeir þurfi á tekjunum að halda. Þetta kemur fram í nýju efnahagsyfirliti sem VR sendi frá sér í dag og byggir á tölum frá hagstofu Evrópusambandsins.  

Þar kemur einnig fram að starfsævi Íslendinga er ellefu árum lengri en annarra Evrópubúa. Íslenskir karlmenn eru tíu og hálfu ári lengur á vinnumarkaði en karlmenn í Evrópusambandslöndum en átta árum lengur en á Norðurlöndunum. 

Konur á íslenskum vinnumarkaði vinna örlítið skemur en karlmenn en engu að síður tólf árum lengur en konur í Evrópusambandslöndum og tæpum sjö árum lengur ef miðað er við Norðurlöndin. Heildarstarfsævi karla er tæp 49 ár en kvenna 45 ár hér á landi.

Viðar Ingólfsson, hagfræðingur hjá VR, segir kannanir sýna að Íslendingar vinni þrátt fyrir að vera komin á ellilífeyrisaldur til að drýgja tekjurnar. 

„Ef við horfum til dæmis á Noreg þá virðist meiri hluti þeirra sem vinna þar eftir töku lífeyris vinna því þau hafa gaman af því. Stór hluti Íslendinga vinnur líka því það er gaman, en stærsti parturinn vinnur eingöngu vegna þess að það þarf að drýgja tekjurnar," segir hann. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×