Innlent

Kjartan Steinbach látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kjartan Steinbach var í lykilhlutverki í handboltahreyfingunni í áratugi.
Kjartan Steinbach var í lykilhlutverki í handboltahreyfingunni í áratugi.
Kjartan K. Steinbach er fallinn frá 68 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein sem hann greindist með fyrir fyrir tveimur og hálfu ári. Frá andlátinu er greint á heimasíðu Handknattleikssambands Íslands. Kjartan starfaði í handknattleikshreyfingunni í áratugi, fyrst sem dómari og síðan sem stjórnarmaður til margra ára.

Kjartan spilaði knattspyrnu og handknattleik á yngri árum með Þrótti. Eftir að ferlinum lauk fór hann að sinna dómgæslu í handknattleik. Hann varð alþjóðlegur eftirlitsmaður og starfaði á helstu stórmótum í áratugi. Er dómara ferlinum lauk vann hann áfram að þróun leikreglna og dómgæslu. 

Hann sat í stjórn HSÍ til margra ára og hafði yfirumsjón með dómaramálum. Einnig var hann varaformaður HSÍ um tíma. Kjartan naut mikillar virðingar fyrir störf sín bæði hér heima og erlendis og til marks um það var hann formaður dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins á árunum 1996 til 2004.

Kjartan sat í ýmsum ráðum og nefndum á vegum HSÍ og var m.a í heiðursmerkjanefnd er hann lést. Kjartan var alltaf boðinn og búinn að leggja starfi HSÍ lið og var gott til hans að leita.

Kjartan hlaut æðstu viðurkenningu fyrir störf sín á vegum HSÍ og síðast liðið vor fékk hann Heiðurskross ÍSÍ fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar. Hann var einnig heiðursfélagi Alþjóða handknattleikssambandsins.

HSÍ þakkar Kjartani fyrir ómetanlegt framlag til handknattleikshreyfingarinnar og sendir eiginkonu og fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×