Innlent

Enn ein lægðin nálgast landið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það bætir í vind og úrkomu með lægðinni í kvöld og nótt.
Það bætir í vind og úrkomu með lægðinni í kvöld og nótt. vísir/vilhelm
Enn ein haustlægðin mun nálgast landið seint í dag úr suðvestri að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Áður en lægðin kemur verður hins vegar hægur vindur á landinu og þurrt nokkuð víða en úrkomusvæði lónar þó yfir syðsta hluta landsins með einhverri rigningu eða slyddu á köflum á því svæði.

Með lægðinni sem kemur seint í dag bætir svo í vind og úrkomu og er útlit fyrir strekking eða allhvassan vind í kvöld og nótt með talsverðri rigningu en slyddu eða snjókomu um landið norðanvert.

„Á morgun blæs vindur af ýmsum áttum og víða má búast við úrkomu, hann ætti þó að hanga þurr að mestu austanlands. Annað kvöld verður áttin síðan orðin norðlæg og eru horfur á að norðanátt verði ríkjandi á fimmtudag og föstudag með kólnandi veðri og frystir á endanum um allt land. Eins og svo oft áður fylgja él norðanáttinni og verða þau einkum bundin við norðanvert landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:



Hæg breytileg átt í dag og þurrt, en rigning eða slydda með köflum sunnanlands. Bætir í vind og úrkomu seint í dag. Strekkingur eða allhvass vindur í kvöld og nótt og talsverð rigning, en slydda eða snjókoma um landið norðanvert.

Suðvestan 10-18 m/s á morgun og rigning eða slydda, en norðaustlægari og snjókoma á Vestfjörðum. Snýst í norðan 8-13 annað kvöld með éljum, en rofar til sunnanlands.

Hiti lengst af kringum frostmark um landið norðanvert, en hiti 1 til 5 stig sunnantil og hlýnar þar í kvöld. Fer kólnandi víða um land annað kvöld.

Á miðvikudag:

Suðvestan 10-18 m/s og rigning eða slydda, en norðaustlægari og snjókoma á Vestfjörðum. Snýst í norðan 8-13 undir kvöld með éljum, en rofar til sunnanlands. Kólnandi veður, hiti um og yfir frostmarki um kvöldið.

Á fimmtudag:

Norðlæg átt 5-13 og él, einkum norðantil á landinu. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:

Norðan 8-13, en 13-18 austanlands. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en bjart sunnan heiða. Frost 0 til 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×