Innlent

Banaslysum barna í umferðinni fjölgað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ísland er í fyrsta sæti í Evrópu hvað varðar hlutfall banaslysa á börnum í umferðinni. Verkfræðingur hjá Vegagerðinni segir þetta gefa tilefni til frekari rannsókna á því hvernig huga megi betur að öryggi barna í umferðinni. Vegagerðin birti í síðustu viku niðurstöður djúpgreiningar á alvarleg slysum á börnum í umferðinni á árunum 2008 til 2017.

Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur vann skýrsluna en markmiðið var að greina helstu hættur í umferðinni þegar kemur að börnum. „Ísland kemur þarna út í fyrsta sæti hvað varðar hlutfall banaslysa á börnum í umferðinni miðað við önnur Evrópulönd sem verður til þess að við viljum skoða þetta nánar,“ segir Katrín. 

Niðurstaðan byggir meðal annars á alþjóðlegri skýrslu um umferðaröryggi frá 2015 og gögnum frá Samgöngustofu. Ákveðna fyrirvara ber þó að hafa hugfasta að sögn Katrínar. „Fámenni þjóðarinnar hefur áhrif á þetta og getur gefið skakka mynd og við verðum að hafa það í huga.“

Á tímabilinu 2008 til 2017 hefur banaslysum barna fjölgað en alls létust 12 börn á aldrinum núll til sextán ára á tímabilinu. Þar af flest árið 2013 þegar fjögur börn létust í umferðinni. Þá slösuðust að meðaltali um 24 börn alvarlega á tímabilinu. „Við viljum auðvitað að börnin geti ferðast örugglega um en það kom í ljós sem sagt að að meðaltali látast 1,2 börn í umferðinni á tímabilinu 2011-2015 og 16 slösuðust alvarlega, þannig þetta er vissulega áhyggjuefni sem við þurfum að skoða nánar,“ segir Katrín. 

Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni.Vísir/Elín



Fleiri fréttir

Sjá meira


×