Körfubolti

Rosalegar tölur í framlengdum leik í Stykkishólmi og Stjarnan skellti Íslandsmeisturunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristen var mögnuð í kvöld.
Kristen var mögnuð í kvöld. vísir/ernir
Heil umferð fór fram í Dominos-deild kvenna. Mesta spennan var í Stykkishólmi þar sem grannaslagur Snæfells og Skallagríms fór í framlengingu.

Þriggja stiga karfa Kristen Denis McCarthy rúmri mínútu fyrir leikslok tryggði heimastúlkum í Snæfell framlengingu en staðan var 70-70 eftir venjulegan leiktíma.

Í framlengingunni voru heimastúlkur sterkari og unnu að lokum þriggja stiga sigur, 81-78, eftir ævintýralega spennu undir lokin.

McCarthy var stigahæst hjá heimastúlkum með 42 stig. Mögnuð frammistaða auk þess að taka 24 fráköst. Hún gaf einnig átta stoðsendingar. Magnaður leikur hjá henni.

Í liði Skallagríms var það Shequila Joseph sem var stigahæst. Hún skoraði 22 stig og tók fimmtán fráköst en næst kom Bryesha Blair með nítján stig.

Stjarnan gerði sér lítið fyrir og skellti Íslandsmeisturum Hauka, 61-58, en frábær þriðji leikhluti sem Stjarnan vann 23-13 steig stórt skref í átt að sigrinum.

Einu sinni sem oftar var það Danielle Rodriguez sem var stigahæst en hún skoraði 36 stig. Næst kom Bríet Sif Hinriksdóttir með níu stig.

LeLe Hardy skoraði fjórtán stig og tók fimmtán fráköst en Þóra Kristín Jónsdóttir, fyrirliði Hauka, skoraði þrettán stig.

Keflavík vann svo átta stiga sigur á Val, 77-69, en sigurinn var aldrei í hættu. Munurinn var lengst af mun meiri en lokatölurnar gáfu til að kynna.

Brittanny Dinkins var stigahæst hjá Keflavík með 27 stig en næst kom Embla Kristínardóttir með tíu stig. Hjá Val voru það Hallveig Jónsdóttir og Brooke Johnson sem voru stigahæstar með þrettán stig.

Snæfell og KR eru á toppnum með átta stig en þar á eftir fylgja Keflavík og Stjarnan með sex stig. Haukar, Valur og Skallagrímur eru með fjögur stig. Breiðablik er svo á botninum án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×