Fótbolti

Vill stytta knattspyrnuleiki niður í 60 mínútur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
De Laurentiis hugsar út fyrir kassann.
De Laurentiis hugsar út fyrir kassann. vísir/getty
„Við erum gömul fífl sem erum að eyðileggja fótboltann,“ segir hinn skrautlegi forseti Napoli, Aurelio de Laurentiis, en hann vill stytta knattspyrnuleiki niður í 60 mínútur.

De Laurentiis var í áhugaverðu viðtali við Le Parisien fyrir leik Napoli gegn PSG þar sem hann tjáði sig um ástand fótboltans í dag sem og framtíðarhorfur.

Forsetinn hefur áhyggjur af því að komandi kynslóðir muni missa áhuga á íþróttinni nema eitthvað stórtækt verði gert.

„Fótbolti er mikilvægur iðnaður. Ef ekki væri fyrir UEFA og FIFA sem halda aftur af framgöngu íþróttarinnar þá væri íþróttin verðmætari,“ sagði De Laurentiis.

„Við verðum að horfa til framtíðar því ungt fólk í dag er bara í tölvuleikjum. Við erum byrjaðir að sökkva og erum að eyðileggja fótboltann. Eftir átta ár verður krökkum alveg sama um fótbolta.“

Það sem forsetinn segir að sé að hafa mest áhrif sé lengd knattspyrnuleikja. Krakkar í dag haldi ekki athygli í svona langa leiki.

„Þetta er okkur að kenna. Við erum gömul fífl. Leikirnir eru leiðinlegir og fótboltaleikir eru of langir. Maður getur sofnað yfir þessu,“ sagði De Laurentiis sem er með hugmynd að breytingum.

„Við verðum að breyta og spila tvo 30 mínútna hálfleiki. Það má bara vera hálfleikur í 2-3 mínútur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×