Körfubolti

Sverrir Þór: Reggie er alvöru töffari

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson í Blue-höllinni skrifar
Sverrir Þór var kampakátur með sigur sinna manna í kvöld
Sverrir Þór var kampakátur með sigur sinna manna í kvöld
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga var kampakátur eftir sigur sinna manna gegn sterku liði Stjörnunnar í kvöld. Keflavík var undir allan leikinn en komst yfir á lokamínútu leiksins.

 

„Tilfinningin er mjög góð. Við vorum í erfiðleikum. Stjarnan gerði virkilega vel og voru mjög sterkir og skipulagðir. Við áttum í erfiðleikum með að skora hjá þeim. Það sem bjargaði þessu var að vörnin okkar var ágæt þannig við misstum þá aldrei langt fram úr. Svo í restina förum við loksins að taka af skarið og þá fór að opna aðeins meira fyrir okkur. Svo datt þetta með okkur undir lokinn, Reggie setur þarna svaka þrist. Frábær sigur á sterku liði. Þetta var langt frá því að vera sannfærandi hjá okkur.“

 

Leikurinn í kvöld var ekki besti leikur Keflvíkinga í vetur, en það sýnir kannski styrkleika þeirra að þeir sigra Stjörnuna, sem margir spá að verði í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í vetur.

 

„Þetta var alls ekki góður leikur, en það er auðvitað því að Stjarnan var að spila mjög vel. Það gerði okkur erfitt fyrir. Við sjáum það að með því að hanga inn í leikjum með að spila ekkert alltof vel, og koma svo með alvöru frammistöðu, þá getum við ennþá unnið leikina. Þessi deild er fáránlega sterk og jöfn.“

 

Sigur Keflavíkur í kvöld var svipaður og sigur þeirra gegn KR fyrr í þessum mánuði. Þá var liðið undir allan leikinn og Reggie Dupree steig upp á ögurstundu eftir annars dapran leik og setti niður risaþrista. Sama var upp á teningnum í kvöld, þegar Reggie setti niður þriggja stiga körfu og kom Keflvíkingum yfir.

 

„Þetta er ekkert smá mikilvægt. Reggie er frábær leikmaður og mikilvægur fyrir okkur. En stundum gerir hann ekki neitt sóknarlega sem er svo skrýtið því hann er svo góður sóknarlega. Hann var ekki búinn að skora neitt en var alltaf að fara taka þetta skot. Hann er alvöru töffari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×