Umfjöllun og viðtöl: Skallagrímur - ÍR 99-96 │Heimasigur í miklum spennuleik

Gunnhildur Lind Hansdóttir skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Sigurður Gunnar Þorsteinsson vísir/bára
Skallagrímsmenn höfðu betur gegn ÍR-ingum í sveiflukenndum leik þegar liðin mættust í Fjósinu í Borgarnesi í 4. Umferð Domino’s deildar karla í kvöld.

Borgnesingar byrjuðu betur í kvöld og tóku strax stjórn á hraða leiksins. Þeir sóttu hart að gestunum sem spiluðu án Matthíasar Orra þar sem hann er að jafna sig eftir öklameiðsli.

Hákon Örn Hjálmarsson kom í hans stað og stóð sig með prýði og gerði Borgnesingum oft á tíðum erfitt fyrir. Engu að síður þá voru heimamenn með yfirhöndina í fyrri hálfleik og þegar liðin gengu til klefa var staðan 53-45 Skallagrími í vil.

Það var allt annað uppi á teningnum í seinni hálfleik. Jafnt var með liðum framan af í þriðja leikhluta en þegar um fjórar mínútur voru eftir af fjórðungnum skiptu Breiðhyltingar um gír og settu 14 stig á þá gulklæddu sem áttu engin svör við þeirra aðgerðum. Staðan 75-69 fyrir ÍR-ingum.

Ljóst var að allt var undir í fjórða og lokaleikhlutanum hjá báðum liðum. Skallagrímsmenn skoruðu fyrstu fimm stig leikhlutans og minnkuðu muninn í eitt stig þegar átta mínútur voru til leiksloka. Gestirnir svöruðu þó með tveimur þristum í röð til að halda forystunni sem þeir voru búnir að leggja mikla vinnu og orku í fyrri leikhluta.

Þegar rétt um þrjár mínútur voru til leiksloka leiddu gestirnir með 10 stigum og allt bendi til þess að Breiðhyltingar myndu taka sigurinn í Fjósinu. Skallagríms breyttu til hjá sér og stilltu sér í svæðisvörn ásamt því að pressa á gestina fullann völl.

Það borgaði sig því heimamenn náðu að minnka muninn í eitt stig þegar ein mínúta var eftir af leik. Eftir fjörugar lokamínútu náðu Skallagrímsmenn að sækja sigurinn eftir sveiflukenndan seinni hálfleik. Lokatölur 99-96 Borgnesingum í vil.

Af hverju vann Skallagrímur?

Heimamenn höfðu getað gert sér aðeins auðveldara fyrir hefðu þeir ekki misst forskotið sem þeir voru búnir að hafa nánast allann fyrri hálfleik. Engu að síður, eftir að hafa lent tíu stigum undir þegar um þrjár mínútur voru eftir af leik héldu þeir haus, spiluðu glæsilega á milli sín og sýndu mikla baráttu og sigurvilja sem skilaði sér í lokin. Sterkur karakter hjá Skallagrímsmönnum.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Skallagrímsmenn spiluðu góða og þétta vörn á gestina og nýttu hraðarupphlaupin sín vel. Breiðhyltingar áttu flottan þriðja leikhluta þar sem þeir snéru leiknum sér í vil og stjórnuðu tempóinu alveg fram að loka mínútum í fjórða leikhluta.

Þá fór að halla undan fæti hjá þeim bláklæddu. Þeir áttu erfitt með að stoppa Skallagrímsmenn sem sóttu hart að körfunni og voru komnir í bónus og nýttu vítin sín vel til að komast aftur inn í leikinn, þrátt fyrir slæma heildar vítanýtingu.

Hverjir stóðu upp úr?

Eyjólfur Ásberg Halldórsson heldur áfram að skila sínu fyrir Skallagrímsmenn. Hann daðraði við þrennuna vinsælu í kvöld en endaði leika með 25 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar.

Það fer lítið fyrir Aundre Jackson sem reyndist sínum mönnum þó vel. Hann skoraði 25 stig og tók sjö fráköst. Matej Buovac kom svellkaldur eftir að hafa hvílt gegn Stjörnumönnum í síðustu umferð og setti 21 stig niður. Borgnesingarnir, Bjarni Guðmann og Björgvin Hafþór voru einnig góðir í kvöld.

Hákon Örn Hjálmarsson stóð sig vel í kvöld og stjórnaði sóknarleik ÍR-inga með prýði. Hann skoraði 19 stig og var með 7 stoðsendingar. Stigahæstur gestanna var hins vegar Justin Martin sem skilaði inn 25 stigum fyrir sína menn.

Hvað gerist næst?

Næst taka Borgnesingar rúntinn suður og mæta hinum nýliðum deildarinnar, Breiðabliki í Kópavoginum. ÍR-ingar fá topp lið Keflavíkur í heimsókn fimmtudaginn eftir rúma viku.

Eyjólfur Ásberg: Ein besta endurkoma sem ég hef tekið þátt í

Leikstjórnandi Skallagríms var í hálfgerðu spennufalli og átti erfitt með að finna orðin þegar leik var lokið í Fjósinu í kvöld.

„Ég er eiginlega í sjokki ennþá. Þetta er ein besta endurkoma sem ég hef tekið þátt í. Skildu sigur hjá okkur. Við þurfum að verja heimavöllinn, algjört lykilatriði,” sagði Eyjólfur glaður í samtali við blaðamann.

Þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka voru heimamenn um 10 stigum undir og skiptu yfir í svæði ásamt því að pressa fullann völl til að trufla ÍR-ingana.

„Svæðið okkar og pressan gekk fullkomlega upp hjá okkur þegar við lentum undir í lokin. Þeir áttu fá svör við því. Matej var með tíu stig síðustu tvær mínúturnar og Aundre með tvo risa þrista á mikilvægum tímapunkti þarna í lokin. Það gekk einhvern veginn allt upp þarna í lokin.”

Finnur Jónsson: Betri stóran hluta leiksins

„Við vorum betri stóran hluta af leiknum en ÍR-ingar góðir í seinni hálfleik og náðu fínu tíu stiga forskoti þarna undir lokin. Við komum samt til baka og kláruðum leikinn. Ég er hrikalega stoltur af þessum strákunum, algjörir töffarar!” sagði Finnur Jóns, þjálfari Skallagríms að leik loknum.

Skallagrímsmenn snéru leiknum sér í vil á lokamínútum eftir að Finnur tók leikhlé til að ræða við strákana sína. En hvað var rætt um til að kveikja í Borgnesingum þegar margt bendi til þess að ÍR-ingar færu með sigur?

„Ég ætla ekki að fara að segja það hér, en það virkaði. Þeir tóku sig taki, við breyttum aðeins um aðferð sem við vorum búnir að undirbúa fyrir leik. Það gekk upp í dag og við tökum tvö stigin fagnandi,” sagði Finnur að endingu.

Borche: Við lærum af þessu og höldum áfram

Þjálfari ÍR var að vonum svekktur að leik loknum þegar hann gaf sér tíma til að ræða við blaðamann vísis.

„Þetta var háspennuleikur hér í kvöld. Mikil orka hjá báðum liðum. Við áttum í vandræðum með þá í fyrri hálfleik þar sem þeir spiluðu hörku vörn á okkur. Við gerðum okkar besta að laga það í seinni hálfleik sem gekk vel,” útskýrði Borche.

Í þriðja leikhluta tóku gestirnir stjórn á parketinu í Fjósinu og gerði sig líklega til að næla sér í tvö stig á erfiðum heimavelli Borgnesinga.

„Við tókum forystuna. Svo tel ég að við höfum hreinlega verið saddir þegar við erum tíu stigum yfir þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka. Þá fellur einhvern veginn allt til Borgnesinga og þeir skora 12 stig í röð á okkur. Við misstum svolítið einbeitinguna þarna undir lokin,” greinir þjálfarinn frá.

„Góður leikur engu að síður og ég óska Skallagrími til hamingju með sigurinn. Tímabilið er langt og rétt að byrja. Við lærum af þessu og höldum áfram. Nóg eftir,” segir Borche bjartsýnn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira