Erlent

Meirihluti Íra samþykkur að fjarlægja ákvæði um guðlast í stjórnarskrá

Atli Ísleifsson skrifar
Michael D Higgins tók við embætti forseta Írlands árið 2011.
Michael D Higgins tók við embætti forseta Írlands árið 2011. Getty/Mike Hewitt
Útgönguspár benda til að Michael D Higgins hafi verið endurkjörinn forseti Írlands og að meirihluti írskra kjósenda séu samþykkir því að fjarlægja ákvæði um guðlast úr stjórnarskrá landsins.

BBC greinir frá því að útgönguspáin sýni að 71 prósent kjósenda hafi greitt atkvæði með því að fjarlægja umrætt ákvæði úr stjórnarskrá. Þá hafi 58 prósent kjósenda greitt atkvæði með Higgins, en hann hefur gegnt embætti forseta Írlands frá árinu 2011.

Higgins er fyrsti sitjandi forseti Írlands í hálfa öld sem fær mótframboð. Kannanir benda til að viðskiptamaðurinn Peter Casey fái næstflest atkvæði, um 21 prósent, sem er mun meira fylgi en skoðanakannanir bentu til fyrir kosningar.

Þó að endanleg úrslit liggi enn ekki fyrir hefur forsætisráðherrann Leo Varadkar þegar óskað Higgins til hamingju með að hafa verið endurkjörinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×