Innlent

Bílar festust í Bröttubrekku á fyrsta vetrardegi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Veðurskilyrði voru afar slæm í nótt.
Veðurskilyrði voru afar slæm í nótt. Vísir/Vilhelm
Á fyrsta vetrardegi sinnti björgunarsveitin útkalli vegna vonskuveðurs þegar tveir bílar festust í Bröttubrekku í nótt. Var brekkan lokuð vegna ófærðar en greiðilega gekk að losa bílana. Björgunarsveitarmaður biðlar til fólks að fylgjast vel með tilkynningum vegagerðarinnar.

Upp úr miðnætti barst Björgunarsveitinni Ósk útkall í Búðardal um óveðursaðstoð þegar vonskuveður gekk yfir en fyrst var greint frá þessu á vef RÚV. Um þrjúleytið í nótt hafði björgunarsveitinni tekist að tjóðra niður lausamuni og binda þá fasta.

Það var svo laust fyrir klukkan 5 í nótt sem sveitinni barst annað útkall vegna bíla sem sátu fastir á norðanverðri Bröttubrekku. Vonskuveður var á brekkunni en þar mældust 25 metrar á sekúndu og snjókoma. Greiðilega gekk að losa bíla og koma þeim heilum niður af brekkunni.

Hvernig voru veðurskilyrðin í nótt?

„Það var ansi hvasst og slydda uppi á heiði skilst mér af þeim sem fóru,“ sagði Kristján Ingi Arnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Óskar.

Fyrsti vetrardagur var í gær og segir hann því ansi einkennandi að útkall vegna vonskuveðurs hafi borist sveitinni. Hann biðlar því til fólk um að aka varlega og fylgjast með tilkynningum vegagerðarinnar.

„Miðað við síðustu ár eru þetta nokkur svona útköll upp á brekkuna. Þetta hefur verið hefðin hjá okkur að það komi nokkur slík útköll á þessum tíma,“ sagði Kristján Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×