Enski boltinn

Átján ára og kominn í enska landsliðið: „Gat ekki hætt að brosa allan daginn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sancho var í stuði á blaðamannafundinum í gær.
Sancho var í stuði á blaðamannafundinum í gær. vísir/getty
Jadon Sancho, nýjasti landsliðsmaður Englands, segir að það hafi komið honum á óvart að vera kallaður inn í enska landsliðshópinn fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni.

Hinn átján ára Sancho hefur farið á kostum hjá Dortmund það sem af er á tímabilinu og hefur gefið fleiri stoðsendingar en nokkur annar í stærstu sex deildunum í Evrópu.

Hann fékk kallið frá Gareth Southgate fyrir leikina gegn Króatíu og Spáni í Þjóðadeildinni. Hann gæti verið fyrsti leikmaðurinn sem er fæddur á þessari öld til að spila fyrir England.

„Ég var á æfingu þegar ég fékk hringinguna. Ég hringdi strax í foreldra mína. Auðvitað voru þau ánægð fyrir mig og ég gat ekki hætt að brosa allan daginn,” sagði Sanco í samtali við Sky Sports.

„Þetta kom mér á óvart enda er ég mjög ungur. Ég á nóg eftir ólært en ég er mjög ánægður að Southgate sjái framfarir mínar í Þýskalandi og er þakklátur.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×