Enski boltinn

Pogba vill að Frakki vinni Gullboltann en telur sig ólíklegan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba spilaði vel á HM.
Paul Pogba spilaði vel á HM. Vísir/Getty
Paul Pogba, leikmaður Manchester United og franska landsliðsins, vill ólmur að Frakki verði kjörinn besti fótboltamaður heims og hljóti Gullboltann en telur sig ólíklegan að hreppa hnossið.

Miðjumaðurinn öflugi er á 30 manna lista yfir þá sem koma til greina en þessi verðlaun fyrir besta fótboltamann heims verða tilkynnt í París 3. desember.

Sjö Frakkar eru á 30 manna listanum eftir að franska landsliðið varð heimsmeistari í sumar en þeir eru: N'Golo Kante, Kylian Mbappe, Antonie Griezmann, Raphaël Varane, Karim Benzema, Hugo Lloris og Paul Pogba.

„Griezmann, Kylian og Raph eiga þetta allir miklu meira skilið en ég. Ég get ekki valið á milli þeirra þriggja en ég trúi því af öllu mínu hjarta að einn þeirra á þetta skilið,“ segir Pogba í viðtali við AFP.

„Kante kemur líka til greina að mínu mati. Það vona ég allavega. Það eru alveg margir sem eiga skilið að vinna en ég er ekki í þessum hópi,“ segir Paul Pogba.

Frá því 2008 hafa Lionel Messi og Cristiano Ronaldo skipt Gullboltanum á milli sín en þessir tveir bestu fótboltamenn heims eru tilnefndir enn eitt árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×