Innlent

Hagnaður Samfylkingarinnar nam tæpum 27 milljónum

Atli Ísleifsson skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. vísir
Hagnaður af rekstri Samfylkingarinnar var 26,7 milljónir króna í árslok 2017 og var eigið fé jákvætt um 76,6 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar en þar segir samstæðureikningi fyrir síðasta ár hefur verið skilað til Ríkisendurskoðunar.

„Þetta er algjör viðsnúningur á stöðu flokksins frá árinu 2016 en þá nam tap af rekstri flokksins rúmlega 33,9 milljónum króna. Sveiflan á stöðu flokksins milli ára nemur því um 60 milljónum króna,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, að árangurinn sé mjög ánægjulegur, ekki síst í ljósi þess að árið 2017 fóru fram Alþingiskosningar og þar sem kostnaður flokksins nam 20,4 milljónir krónur.

Styrkir frá einstaklingum námu 33,3 milljónum króna, og af þeim komu 15,7 milljónir frá kjörnum fulltrúum og nefndarfólki. 17,5 milljónir króna söfnuðust í sóknarátökum, framlög ríkisins til flokksins árið 2017 námu um 23,1 milljónum króna og styrkir lögaðila voru 6,7 milljónir króna.

Uppfært klukkan 11:41

Í fyrri tilkynningu frá Samfylkingunni sagði að viðsnúningurinn hefði verið um 55 milljónir króna. Það hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×