Erlent

Létust vera kommúnistar til að sverta andstæðinginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump forseta verður tíðrætt um að demókratar séu orðnir vinstriöfgaflokkur. Svo virðist sem að mennirnir tveir hafi viljað bendla Tom O'Halleran við öfgahópa til vinstri.
Trump forseta verður tíðrætt um að demókratar séu orðnir vinstriöfgaflokkur. Svo virðist sem að mennirnir tveir hafi viljað bendla Tom O'Halleran við öfgahópa til vinstri. Vísir/EPA
Tveir félagar í Repúblikanaflokknum í Arizona í Bandaríkjunum eru sagðir hafa reynt að gefa framboði þingmanns demókrata fé í nafni samtaka kommúnista. Uppátækið virðist hafa verið tilraun til þess að bendla þingmanninn við vinstriöfgahópa.

Starfsmenn framboðs Toms O‘Halleran, fulltrúadeildarþingmanns demókrata, fylltust fljótt grunsemdum þegar tveir menn mættu á skrifstofu þess og vildu styrkja framboðið um tæpa fjörutíu dollar.

Þegar þeir voru beðnir um að fylla út eyðublað sögðust þeir vera félagar í Kommúnistaflokki Háskóla Norður-Arizona. Það væri ekki fullgildur flokkur en hópurinn héldi úti fundum. Kröfðust þess þeir einnig að fá kvittun fyrir framlaginu. Þegar þeim var sagt að þeir fengju aðeins kvittun í tölvupósti þurrkaði annar þeirra út tölvupóstfang sem hann hafði sett á blað og skrifaði annað í þess stað, að sögn The Guardian.

Fjármálastjóri framboðsins heimsótti í kjölfarið skrifstofu Repúblikanaflokksins til þess að skila fénu. Þar tók á móti honum annar meintu kommúnistanna. Fjármálastjórinn heldur því fram að hinn maðurinn sé skipuleggjandi fyrir Repúblikanaflokkinn í Arizona og að hann hafi gefið upp rangt nafn. Ólöglegt er að gefa fé til bandarískra stjórnmálaframboða undir fölsku flaggi.

Hvorki Repúblikanaflokkurinn í Arizona né Wendy Rogers, frambjóðandi hans til þingkosninga sem fara fram í byrjun nóvember, vildu tjá sig um uppákomuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×