Erlent

Hélt fram sakleysi sínu en myndband leiddi annað í ljós

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í myndbandinu sést Zeigler greinilega miða byssu sinni á Walker.
Í myndbandinu sést Zeigler greinilega miða byssu sinni á Walker. Mynd/Skjáskot
Bandarískur karlmaður á sextugsaldri hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás í Michigan-ríki í Bandaríkjunum eftir að hann reyndi að skjóta pilt sem spurði hann til vegar. Maðurinn er hvítur en drengurinn er svartur og hefur árásin verið sögð grundvallast á kynþáttafordómum.

Hinn fjórtán ára Brennan Walker missti af skólabílnum að morgni tólfta apríl síðastliðinn og villtist á leið sinni í skólann. Hann bankaði upp á að heimili Jeffrey Zeigler til að spyrja til vegar en mætti þar Zeigler, vopnuðum haglabyssu.

Í upptöku úr öryggismyndavél við húsið sést hvernig Walker bíður í rólegheitum eftir því að einhver komi til dyra. Hann tekur skyndilega á rás í burtu frá húsinu og Zeigler fylgir í humátt á eftir honum, miðar byssunni á hann og skýtur. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Zeigler var sakfelldur fyrir líkamsárás og tilraun til að valda alvarlegu líkamstjóni, en hafði þó verið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að skort hefði ásetning til þess. Zeigler gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi.

Jeffrey Zeigler.Mynd/Lögregla í Oakland
Bæði Zeigler og eiginkona hans hafa verið sökuð um kynþáttafordóma í kjölfar árásarinnar. Í neyðarlínusímtali, sem eiginkonan hringdi í kjölfar árásarinnar, tilkynnir hún að „svartur karlmaður“ hafi reynt að brjótast inn í hús hennar.

Þá hefur Zeigler sjálfur haldið fram sakleysi sínu í málinu. Hann fullyrti við vitnaleiðslur fyrr á árinu að hann hefði talið að pilturinn væri innbrotsþjófur og að hann hefði staðið hann að verki. Zeigler þvertók jafnframt fyrir að hafa miðað á Walker og hélt því fram að hann hefði hrasað og hleypt óvart af byssunni. Myndband úr öryggismyndavél Zeiglers leiddi þó annað í ljós.

Ofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum hefur verið töluvert til umræðu síðustu ár. Einkum hefur spjótunum verið beint gegn ofbeldi af hálfu lögreglu en ítrekað hafa komið upp mál í Bandaríkjunum þar sem hvítir lögregluþjónar skjóta svart fólk til bana.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×