Fótbolti

Southgate: Áttum skilið að vinna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Englendingar fóru illa með dauðafæri í gær
Englendingar fóru illa með dauðafæri í gær vísir/getty
Gareth Southgate segir Englendinga hafa átt að vinna leik sinn við Króata í Þjóðadeildinni í gær. Leikmenn Englands skutu tvisvar í tréverkið í leiknum.

Liðin mættust fyrir luktum dyrum í Rijeka í gærkvöld og var leikurinn heilt yfir frekar bragðdaufur, en Englendingar fengu þó sín færi. Eric Dier og Harry Kane skölluðu í stöngina og Marcus Rashford klúðraði tveimur dauðafærum einn á móti markmanni.

„Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn. Við fengum mjög gott færi upp úr hornspyrnu og þeir áttu eitt færi,“ sagði landsliðsþjálfarinn Southgate eftir leikinn.

„Þeir áttu eitt gott færi í seinni hálfleik en mér fannst við stjórna leiknum á löngum köflum. Frammistaðan í seinni hálfleik var frábær.“

„Við pressuðum og pressuðum allt til enda, svo ég get ekki beðið um meira. Ég er ánægður með færin sem við sköpum og við verðum bara að ganga úr skugga um að við klárum þau.“

„Þetta er leikur sem við hefðum átt að vinna og miðað við frammistöðuna áttum við það skilið,“ sagði Gareth Southgate.

England og Króatía eru með eitt stig í riðlinum eftir tvo leiki, Spánverjar sex. Englendingar sækja Spánverja heim á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×