Enski boltinn

Klopp vill ekki vera minnst sem fyndna stjórans sem vann ekki neitt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þjóðverjinn slær oft á létta strengi
Þjóðverjinn slær oft á létta strengi vísir/getty
Jurgen Klopp segist vonast eftir því að hans verði ekki minnst sem ósigursæla en fyndna stjórans á Anfield. Hann fagnaði þriggja ára starfsafmæli sínu hjá félaginu á dögunum.

Klopp kom til Liverpool í október 2015 og sagðist hann vilja vinna titil á fjórum árum. Hann þarf því að vinna titil á þessu tímabili til þess að ná því.

Þjóðverjinn hefur komið Liverpool í úrslit deildarbikarsins, Evrópudeildarinnar og Meistaradeildar Evrópu en tapað öllum þremur úrslitaleikjunum.

„Ég hef sagt það nokkru sinnum að ég hef ekki hugmynd hvenær við vinnum titil,“ sagði Klopp.

„Ég veit ekki hvenær það verður en þangað til skulum við njóta fótboltans, heimsins og ferðalagsins.“

„Enginn vill horfa til baka eftir 10 eða 20 ár og hugsa að besti tíminn án titils var þegar Klopp var hér, hann var svo fyndinn og allt það.“

Liverpool vann síðast titil árið 2012 þegar Kenny Dalglish stýrði þeim til sigurs í deildarbikarnum.

Margir telja Liverpool vera helsta keppinaut Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Liðin eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar eftir átta umferður líkt og Chelsea.

„Við erum líklega á okkar besta augnabliki í mjög langan tíma, en það er eins hjá nokkrum félögum og þau hafa tekið sömu skref og við. Þess vegna er þetta svona erfitt.“

„En eins og ég sagði á mínum fyrsta fréttamannafundi hér, ef einhver heldur að ég geti unnið kraftaverk þá verður framtíðin erfið, því ég get það ekki,“ sagði Jurgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×