Enski boltinn

Gylfi mætir Tottenham á Þorláksmessu og meistaraefnin mætast á nýju ári

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það snjóaði þegar Everton og Liverpool mættust í desember í fyrra. Liðin eigast aftur við í jólamánuðinum á þessu tímabili
Það snjóaði þegar Everton og Liverpool mættust í desember í fyrra. Liðin eigast aftur við í jólamánuðinum á þessu tímabili vísir/getty
Það verður Íslendingaslagur á annan dag jóla í ensku úrvalsdeildinni og Gylfi Þór Sigurðsson spilar á Þorláksmessu. Leikjadagskráin yfir jólahátíðina hefur verið staðfest.

Atvinnumenn í fótbolta í efstu deildum Englands fá lítinn frítíma yfir jólahátíðirnar, það er sá tími þegar leikið er hvað mest.

Desembermánuður byrjar af krafti með stórleikjum og nágrannaslögum Liverpool og Everton og Arsenal og Tottenham sunnudaginn 2. desember. Arsenal á annan stórleik þremur dögum seinna þegar Skytturnar mæta á Old Trafford.

16. desember eigast erkifjendurnir í Liverpool og Manchester United við á Anfield.

Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson mæta báðir stórliðum 22. desember, Burnley sækir Arsenal heim og Cardiff tekur á móti Manchester United. Einn leikur fer fram sunnudaginn 23. desember, á Þorláksmessu, það er viðureign Everton og Tottenham á Goodison Park.

Annan dag jóla verður Íslendingaslagur á Turf Moor þegar Burnley og Everton mætast. Alls fara níu leikir fram 26. desember. Hádegisleikur Fulham og Wolves, sex leikir klukkan 15:00 þar sem bæði Manchester-liðin, Liverpool og Tottenham verða í eldlínunni, síðdegisleikur Brighton og Arsenal og óhefðbundinn kvöldleikur Watford og Chelsea.

Ekki verður leikið á gamlársdag en heil umferð fer fram helgina 29. - 30. desember þar sem leikur Liverpool og Arsenal er stórleikur umferðarinnar. Á nýársdag mæta Gylfi og félagar Leicester og Cardiff tekur á móti Tottenham.

Stærsti leikur hátíðatímabilsins fer fram á nýju ári. Toppliðin, sem þó verða kannski ekki toppliðin þegar kemur að þessum leikjum, Manchester City og Liverpool eigast við fimmtudaginn 3. janúar 2019.

Alla leikjadagskrá ensku úrvalsdeildarinnar má sjá hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×