Enski boltinn

Hazard vill vinna með Mourinho aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hazard spilaði fyrir Mourinho hjá Chelsea
Hazard spilaði fyrir Mourinho hjá Chelsea vísir/getty
Eden Hazard vill vinna með Jose Mourinho aftur. Hann sér eftir því hvernig þeir skildu árið 2015.

Hazard var í löngu viðtali við belgíska miðilinn HLN og talaði þar opinskátt um tímann undir Jose Mourinho. Morinho stýrði Chelsea í seinna skiptið frá 2013 þar til hann var rekinn í desember 2015.

Hazard sagði þriðja tímabil Mourinho hafa orðið mjög neikvætt, hann gagnrýndi leikmennina og tók alla skemmtun út úr æfingunum. En Belginn sagðist finna fyrir sektarkennd vegna því hversu slæm frammistaða hans var á tímabilinu 2015-16.

„Á 12 ára ferli í fótbolta hef ég aðeins átt eitt slæmt tímabil, síðustu sex mánuðina undir Mourinho, og það var að hluta til mér að kenna,“ sagði Hazard.

„Eftir titilinn 2015 báðum við Mourinho um auka frídaga og ég kom til baka í mjög lélegu formi.“

Hann sagðist hafa sent Mourinho skilaboð eftir að hann var rekinn og beðist afsökunar á frammistöðu sinni.

„Síðasta tímabilið undir Mourinho var ekki skemmtilegt. Við unnum ekki leiki, við komumst í rútínu þar sem æfingarnar voru ekki skemmtilegar lengur. Það var betra að leiðir skildu. En ef það er einhver þjálfari sem ég vil vinna með aftur er það Mourinho.“

„Við vorum með lið sem gat unnið fleiri titla, við festumst bara í neikvæðri hringrás.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×