Innlent

Laun skólastjórnenda hafa dregist aftur úr

Andri Eysteinsson skrifar
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands fór fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands fór fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Facebook/Skólastjórafélag Íslands
Skólastjórnendur hafa dregist aftur úr í launum á undanförnum árum, Skólastjórafélag Íslands gagnrýnir samninganefnd sveitarfélaganna í ályktun ársfundar félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands en Skólastjórafélagið er hliðarfélag þess.

Ársfundur Skólastjórafélags Íslands fór fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í morgun.

Í ályktun fundarins segir: „Í ljósi lögboðins hlutverks skólastjóra er algjörlega óásættanlegt að framhaldsmenntun skólastjórnenda skuli ekki vera metin jafns við undirmenn þeirra."

Enn fremur segir í ályktuninni að óásættanlegt sé að starfsreynsla við kennslu skuli ekki metin við launaröðun þegar kennarar eru ráðnir sem skólastjórnendur í grunnskólum.

„Sérstaklega er þetta athyglisvert í ljósi þess, að við ráðningar í störf skólastjórnenda í grunnskólum, er kennslureynsla ávallt talin kostur eða skilyrði.“

Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf og viðhorf samninganefndar sveitarfélaganna enda hafi skólastjórnendur dregist aftur úr í launum á undanförnum árum.

Dæmi séu til af skólastjórnendum sem hafi snúið aftur til kennslu af þeim sökum. Þrátt fyrir það hafi samninganefnd ekki verið tilbúin til að grípa til leiðréttinga á kjörum skólastjórnenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×