Enski boltinn

Salah flýgur heim til Liverpool eftir meiðslin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Salah gengur af velli í leiknum í gær
Salah gengur af velli í leiknum í gær Vísir / Getty
Mohamed Salah er farinn aftur heim til Liverpool úr herbúðum egypska landsliðsins eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í landsleik gegn Svasílandi í gær.

Leikurinn er liður í undankeppni Afríkumótsins en Egyptaland bar sigur úr býtum 4-1 og skoraði Salah eitt af mörkum liðsins áður en hann meiddist.

Stuðningsmenn Liverpool hafa beðið með öndina í hálsinum eftir fréttum af framherjanum snjalla og nú hefur egypska knattspyrnusambandið sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Salah hefur fengið leyfi til að fljúga aftur til Liverpool þar sem sjúkraþjálfarar enska liðsins munu greina meiðslin betur.

Salah fór í myndatöku í gærkvöldi og þar kom í ljós að hann yrði ekki klár fyrir næsta leik landsliðsins á þriðjudag og því var honum leyft að fljúga heim.

Salah hefur ekki náð sömu hæðum í leik sínum á þessu tímabili og hann gerði á því síðasta en það yrði engu að síður slæmt fyrir lið Liverpool að missa einn af sínum lykilmönnum.

Liverpool á næst leik gegn Huddersfield eftir viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×