Fótbolti

Maradona segir Messi ekki vera leiðtoga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Diego Maradona sparar sjaldan stóru orðin.
Diego Maradona sparar sjaldan stóru orðin. Vísir/Getty
Fótboltagoðsögnin Diego Maradona gagnrýnir samlanda sinn Lionel Messi harðlega í viðtali við Fox og segir hann ekki vera leiðtoga og að ekki ætti að líta á hann sem guð í fótboltaheiminum.

Maradona er ekki beint þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og gerir það heldur ekki í þetta sinn. Hann, líkt og Messi, er af flestum talinn vera einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar.

Í viðtalinu segir Maradona að Messi sé ekki sami leikmaðurinn þegar hann leikur með Barcelona og Argentínu.

„Messi er Messi þegar hann klæðist treyju Barcelona en annar Messi þegar hann leikur með Argentínu. Hann er frábær leikmaður en enginn leiðtogi. Áður en hann talar við leikmennina og þjálfarann vill hann vera í Playstation. Á vellinum vill hann síðan vera leiðtogi. Það er tilgangslaust að gera mann að leiðtoga sem fer á klósettið 20 sinnum fyrir leik.“

Messi er 31 árs en hefur ekki tekist að vinna heimsmeistaratitil með Argentínu líkt og Maradona gerði árið 1986 í Mexíkó. Messi tók sér frí með landsliðinu eftir HM í Rússlandi í sumar.

„Ég myndi ekki hringja í hann núna en maður á aldrei að segja aldrei. Hann er bestur í heimi ásamt Cristiano Ronaldo en við verðum að losa hann undan pressunni,“ bætti Maradona við en hann er nú þjálfari mexíkóska 2.deildar liðsins Dorados.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×