Enski boltinn

Carrick: Mourinho á hrós skilið fyrir að halda í hefðir United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Carrick er kominn í þjálfarateymi United
Carrick er kominn í þjálfarateymi United vísir/getty
Michael Carrick segir Jose Mourinho eiga hrós skilið fyrir að halda uppi hefðum Manchester United og gefa ungum leikmönnum úr akademíu félagsins tækifæri.

Í gegnum sögu félagsins hefur það verið hefðin hjá United að leyfa ungum leikmönnum að spila. Hinn frægi '92 árgangur og svokallaðir „Busby babes“ eru dæmi um lið seð náðu frábærum árangri og voru að mestu byggð í kringum uppalda leikmenn.

Þegar Mourinho kom til félagsins héldu margir að sú hefð færi fljúgandi því Portúgalinn er með orðspor á sér fyrir að treysta á reynslu og að kaupa inn nýja leikmenn frekar en að leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig.

Hann hefur hins vegar hleypt nokkrum ungum leikmönnum inn í liðið á borð við Marcus Rashford, Jesse Lingard og Scott McTominay.

„Hann skilur sögu félagsins,“ sagði Michael Carrick við Sky Sports. Carrick var í 12 ár hjá United og spilaði 316 leiki fyrir félagið.

„Hann á skilið mikið hrós fyrir að spila Rashford og McTominay á síðasta tímabili. Þeir fengu meira að segja nokkra stóra leiki.“

„Það er áskorun fyrir félagið að halda þessu áfram. Við fáum ekki lengur tíu, tuttugu unga leikmenn upp, kannski bara fimm, sex, en það þarf að halda áfram að gefa þeim tækifærin.“

Það hefur verið nokkur umræða í Englandi um hversu lítið af tækifærum ungir enskir leikmenn fá í úrvalsdeildinni. Manchester United stillir hins vegar alltaf upp liði á leikdegi sem inniheldur að minnsta kosti einn leikmann úr akademíu félagsins, síðast þegar enginn uppaldur var í liðinu var árið 1937.

„Þegar allt kemur til alls þá eru akademíurnar til þess að framleiða leikmenn og koma þeim í aðalliðið. Það má ekki hunsa söguna og hefðina, sérstaklega ekki hjá United.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×