Viðskipti innlent

WOW flýgur aftur til Ísraels

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi mynd var tekin af þeim Yisrael Katz samgönguráðherra Ísrael og Skúla Mogensen, forstjóri WOW, þegar flugfélagið hóf áætlunarflug til Tel Aviv í fyrra.
Þessi mynd var tekin af þeim Yisrael Katz samgönguráðherra Ísrael og Skúla Mogensen, forstjóri WOW, þegar flugfélagið hóf áætlunarflug til Tel Aviv í fyrra. WOW
WOW air mun fljúga á ný til Tel Aviv í Ísrael. Flogið verður þangað fjórum sinnum í viku; á þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og laugardögum. Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að flug til borgarinnar hefjist 11. júní og standi út október 2019.

Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW, í tilkynningunni að aðstandendur flugfélagsins séu ánægðir að geta hafið flug til Ísrael að nýju. „Við finnum fyrir miklum áhuga á flugleiðinni. Bæði hafa Ísraelar mikinn áhuga á að heimsækja Ísland auk þess sem tengingin við Norður-Ameríku undirstrikar okkar sérstöðu á markaðnum,“ segir Skúli.

WOW hóf áætlunarflug til Tel Aviv í september í fyrra og þótti það gagnrýnivert. Þannig sagði félagið Ísland-Palestína að áætlunarflug WOW til Ísraels væri siðferðislega vafasamt.

Flugtíminn frá Íslandi til Tel Aviv er í kringum sjö klukkustundir en flugmiðasala til borgarinnar er sögð hefjast á morgun, miðvikudag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×